Á fleira sameiginlegt með vélsög en dýri

,,Ég held við séum kannski 20 ár frá því að sjá fyrstu vélina sem einhver myndi segja að væri farin að nálgast mannsbarn í þroska. Það eru svo margir þættir, alveg burtséð frá því hvernig menn skrifa um gervigreind og sjálfvirkni og hvernig menn tala í dag og slá þessu öllu saman eins og þetta sé alveg handan við hornið. Það vantar alveg gífurlega marga þætti inn í skilning okkar og þekkingu á mannlegri greind til þess að nokkur hafi hugmynd um það hvernig við gætum hugsanlega búið til vél sem gæti apað eftir einföldustu hlutum, eins og barn sem lærir að halda á verkfæri eða fullorðinn sem kann að fara með vélsög. Það er nauðsynlegt að vélin hafi alhliðagreind til að hún geti farið að ógna þjóðfélaginu á einhvern grundvallarmáta," segir Kristinn og bætir við að þær vitvélar sem hannaðar hafi verið eigi það allar sameiginlegt að líkjast frekar vélsög en lifandi dýri.

Brú milli grunnrannsókna og atvinnulífs

Stjórnvöld hafa frá árinu 2009 stutt við rannsóknir og þróun á gervigreind með fjárveitingum til Vitvélastofnunar Íslands. Alls hefur stofnunin fengið tæpar 400 milljónir króna frá Rannís. Þórir Hrafnsson, upplýsingafulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, segir að markmiðið sé að ýta undir öfluga þróun og framfarir á þessu sviði. Kristinn segir stofnunina mikilvæga brú milli grunnrannsókna og atvinnulífsins. Hún stuðli að því að halda fyrirtækjum sem sérhæfi sig á sviði gervigreindar í landinu. Þá skipti sköpum fyrir sprotafyrirtæki að hafa sem beinastan aðgang að þekkingu sem geti fleytt þeim í fremstu röð. Þrátt fyrir að hún hafi fengið mikið fjármagn frá ríkinu, á íslenskan mælikvarða, sé fjármagnið þó minna en sambærilegar stofnanir ytra hafi þurft til þess að ná fótfestu.

Segir stofnunina ekki á spenanum

,,Þessi stofnun miðað við til dæmis Hafrannsóknarstofnun eða aðrar stofnanir sem eru, eins og maður segir, á spenanum. Stofnun eins og Vitvélastofnun sem er keyrð á samkeppnissjóðsfjármagni er mjög góð hugmynd og hvetur til þess að menn reyni að vera í fremsta flokki," segir Kristinn.

Kristinn segir íslenska vísindamenn standa mjög framarlega á heimsvísu, á þeim fáu sviðum innan gervigreindarrannsókna sem þeir hafi einblínt á. Starfsmenn Vitvélastofnunar hafa, samkvæmt Kristni, þróað eitt fyrsta kerfi sem nálgast það að hugsa sjálfstætt. Kristinn segir að rannsakendur ytra hafi í raun enn ekki áttað sig á því hversu langt Íslendingar séu komnir á sviði gervigreindar. Aðferðafræðin sem starfsmenn Vitvélastofnunar styðjist við sé óhefðbundin og fæli hugsanlega einhverja frá. Meðal annars er horft til kenninga franska þroskasálfræðingsins Piaget.